21.5.2007 | 17:31
Ekki hissa
Ég hef margoft komið með ferðamenn í Reynisfjöru og horft út á sjóinn. Reynisfjara er kyngimagnaður staður; hún er aldrei eins og er síbreytileg. Stundum er þetta slétt sandfjara og litlar og sakleysislegar öldur. Svo skellur á stórfenglegt brim og sandurinn hverfur á brott og eftir stendur stórgrýtt malarfjara.
Það er einnig mjög aðdjúpt og þá brotna öldurnar mjög hratt og koma mjög hratt upp á land, oft hraðar en fullfrískt fólk hleypur. Og ef menn missa jafnvægið og hrasa við, þá er hætt við því að útsogið taki menn og beri þá langt út á sjó. Fyrir nokkrum árum stakk þjóðverji sér til sunds í sjóinn rétt austan við Vík, þetta var ungur maður og þaulvanur sundmaður. Hann komst ekki hljálparlaust í land, heldur fór einhver með band út til hans og voru þeir dregnir í land, á jeppa ef ég man rétt.
Landslagið í Reynisfjöru er stórbrotið og ægifagur. Þar er fallegt stuðlaberg, skemmtilegir hellar, svartur sandur, hvítfextar öldur og litríkir lundar. Á góðviðrisdögum á sumrin er ætíð mikið af fólki í fjörunni að njóta útsýnisins og láta sólina baka sig. Á meðan flýgur lundinn millu holu og hafs og múkkinn gargar. Reynisdrangar bjóða öldunum byrginn og dyrnar í Dyrhólaey eru draga til sín athyglina. Enginn sem hefur komið í Reynisfjöru í vetrarbrimi gleymir þeirri upplifun, brimskaflar á stærð við fjöll berja landið og sandurinn rótast til.
En þeir sem koma þarna að sumarlagi þegar sjórinn er tiltölulega sléttur átta sig kannski ekki á þeim öflum sem leynast undir yfirborðinu. Ég er leiðsögumaður og kem að jafnaði nokkrum sinnum í mánuði í Reynisfjöru allt árið um kring, stundum jafnvel 2-3 í hverri viku. Á veturna er ekki erfitt á sannfæra fólk um hættuna sem þarna býr, hún er augljós. Á sumrin lítur fjaran hins vegar sakleysislega út og þá gleymir fólk sér oft við að taka myndir og njóta stundarinnar. Einna helst eru það ferðamenn sem ekki hafa alist upp við hafið (eða búa nálægt hafinu) sem skynja ekki hættuna. Má þar nefna tékka, ungverja, miðríkja ameríkana og fleiri. Hins vegar þekkja aðrir vána vel, t.d. bretar og írar.
Ferðamenn sem koma í Reynisfjöru í fylgd leiðsögumanns ættu að hafa fengið viðvörun um hættuna og venjulega stendur leiðsögumaðurinn á bakkanum og fylgist með og biður fólk að koma í land þegar hann sér að brot er á leiðinni (venjulega sjötta hver alda). En fólk sem er að ferðast á eigin vegum hefur oft ekki hugmynd um hættuna. Og heldur jafnvel að hægt sá að fá sér sundsprett. Sumir hafa óviðráðanlega þörf til að hlaupa á móti öldunni og snerta sjóinn til að sannreyna að hann sé kaldur, þessir sömu eiga síðan fótum fjör að launa þegar brotið kemur. Margur hefur orðið blautur í fæturnar á þessu athæfi. En ef aldan er stór þá getur hún náð taki á börnum, eða sett menn úr jafnvægi svo að þeir hrasi, og þá er voðinn vís.
Við Reynisfjöru er hvorki viðvörunarskilti né bjarghringur. Hvort tveggja ætti að vera þarna. Á veturnar er oft mikið sandfok þarna, svo að ég veit ekki hversu lengi skilti eða hringur endist við þær aðstæður. Í Reynisfjöru er EKKI tryggt GSM samband, og það getur kostað margar mínútur að komast í samband. Það geta verið dýrmætar mínútur.
Á meðan lokað er út í Dyrhólaey fara allir í Reynisfjöru. Ef opið væri út í Ey, færu eflaust margir þangað og sleppa þá viðkomu í Reynisfjöru, sérstaklega ef tilgangur ferðarinnar er að sjá lunda.
Ég er ekki hissa á því að það hafi orðið slys í Reynisfjöru, frekar en ég verð ekki hissa þegar ég frétti að það hafi einhver brennt sig við Geysi, eða hrasað við Dettifoss. Þetta eru staðir sem eru hættulegir. Auðvitað er það sorglegt að það þurfi að verða slys, sérstaklega ef það eru slys sem eru afstýranleg. Í þessu tilfelli virðist sem svo að þetta hafi bara einfaldlega verið slys og öll viðbrögð rétt.
Það er svo allt önnur spurning, hver beri ábyrgðina (ef einhver) og hvað eigi að ganga langt í því að forða slysum. Ég tel ekki heppilegt að girða alla hættulega staði af með mannheldri girðingu, enda væri það þvert á hefðina hér á Íslandi. Hér ber fólk ábyrgð á sjálfum sér og á að sjá fótum sínum forráð. Hvernig á fólk að læra að meta hættu, ef það þarf aldrei að gera áhættumat?
Brimaldan sogaði konuna á haf út og ógnaði samferðamönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég var nú að enda við að skoða helling af myndum hjá Kjartani Pétri úr útskriftarferð hans og þar var obbinn af nýútskrifuðum leiðsögumönnum að máta sig við sjóinn, alveg eins og við gerðum áreiðanlega í mínum hópi þegar við fórum útskriftarferðina. Vandamálið í fjörunni er miklu meira á veturna en á sumrin, er ekki svo?
Berglind Steinsdóttir, 28.5.2007 kl. 09:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.